MS og Ísey til liðs við Til sjávar og sveita

Mjólkursamsalan og Ísey útflutningur koma inn sem bakhjarlar viðskiptahraðalsins Til sjávar og sveita sem fer af stað þann 15. nóvember og bætast þar við Samkaup sem styðja við verkefnið annað árið í röð. Icelandic Startups hafa keyrt hraðalinn seinustu tvö ár í góðu samstarfi við Sjávarklasann, Landbúnaðarklasann og Matís og hafa á þeim tíma 19 sprotafyrirtæki farið í gegn. 

Ari Edwald, forstjóri Ísey: „MS og Ísey er mikið kappsmál að styðja við frumkvöðlastarfsemi og sprotafyrirtæki og það hefur verið markmið MS með aðild að Landbúnaðarklasanum á undanförnum árum. Það eru mikil tækifæri til að skapa meiri verðmæti í matvælaiðnaði og víðar úr innlendum hráefnum og nýjum lausnum varðandi tækni og umhverfismál. Viðskiptahraðallinn „Til sjávar og sveita“ hefur sýnt að hann er gagnlegur til að laða fram hugmyndir og hjálpa frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum að ná árangri.“

Kristín Soffía, framkvæmdastjóri Icelandic Startups um samstarfið: „Við erum gríðarlega spennt yfir því að fá Ísey og MS inn í verkefnið. Þau koma ekki bara inn með fjármagn heldur koma þau inn með öflugt fólk og mikla reynslu. Þeirra þátttaka mun styrkja verkefnið enn frekar. 

Í ár verður lögð áhersla á fyrirtæki sem eru tilbúin með vöru eða langt komin í vöruþróun og hyggjast sækja á markað eða auka markaðssókn innanlands- sem og utan. Hraðallinn verður keyrður í fjórar vikur og hefst hann 15. nóvember og lýkur með uppskerudegi 10. desember.  

Freyr Friðfinnsson, verkefnastjóri Til sjávar og sveita: „Það er löngu tímabært að keyra svona markaðshraðal hér á landi því markaðssetning virðist vera veikleiki í uppbyggingu á íslenskum sprotafyrirtækjum. Það verður ómetanlegt að fá að draga að borðinu helstu sérfræðinga landsins til að gefa af sér og leiðbeina þessum fyrirtækjum“.

Fjögurra vikna markaðshraðall er viðurkennd aðferð til að hraða fyrirtækjum í gegnum það flókna ferli að sækja á markað og er hraðalinn byggður upp í samstarfi við GAN – Global Accelerator Network.

Icelandic Startups