Til sjávar og sveita hefst á netinu!

Viðskiptahraðallinn Til sjávar og sveita: frá hugmynd í hillu hóf göngu sína s.l. mánudag, en nokkrum dögum áður spratt upp þriðja bylgja Covid hér á landi. Til að sýna ábyrgð í verki færðum við dagskrá næstu daga yfir á rafrænt form og tókum ákvörðun um að haga vind eftir seglum eftir því sem hraðlinum vindur fram.

IMG_6300.jpg

Stuttu áður en hraðallinn hófst hittust nokkur teymi á Eldstæðinu og fengu að smakka Shiitake sveppina frá Sælkerum og mjólkurlíkjörinn frá Jöklavin.

VIka 1

Hraðallinn hófst s.l. mánudag á stöðufundum með hverju teymi þar sem við ræddum markmiðin og línurnar voru lagðar fyrir samstarfið næstu tíu vikur. Á þriðjudag hófst formleg dagskrá. Við byrjuðum daginn á því að kynnast betur. Starfsmenn Icelandic Startups fjölluðu síðan um mikilvægi þess að setja sér skýr og mælanleg markmið og hvöttu þátttakendur til að stilla saman strengi hvert í sínu teymi til að tryggja að öll hefðu þau sömu sýn um framhaldið. Við héldum áfram og fórum yfir það hvernig gott væri að ramma inn viðskiptahugmyndir. Lögð var áhersla á að setja viðskiptavininn í öndvegi; draga fram virðið sem ætlunin er að skapa og skoða leiðir sem hægt er að fara til að nálgast markhópinn.

Þau Harpa Hlín Þórðardóttir og Stefán Sigurðsson frá Iceland Outfitters litu við og miðluðu af reynslu sinni ýmsum hollráðum til þátttakenda til undirbúnings fyrir komandi mentorfundi. Iceland Outfitters tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup Tourism árið 2019 sem einnig er í umsjón okkar hjá Icelandic Startups.

Við enduðum daginn á vinnusmiðju þar sem teymin unnu með viðskiptalíkanið sitt og kynntu hvort fyrir öðru.

Image from iOS.jpg
B0725CEF-8BF8-4045-9353-148C638FA1D4.jpg
Gullegg-15.jpg
IMG_6414.jpg


Ævar Hrafn Ingólfsson frá KPMG opnaði miðvikudaginn á því að fjalla um stofnun félags og upphaf reksturs, sem og hagnýtar upplýsingar varðandi hluthafasamkomulag og kaupréttarsamninga. Því næst fengum við til okkar Sigurhönnu Kristinsdóttur hjá Gangverk til að miðla góðum ráðum varðandi vinnulag og teymisvinnu.

Áður en við héldum áfram að fjalla um mikilvægi þess að ná vel utan um viðskiptavininn og köfuðum dýpra í virðiskjarnann í verkefnum þátttakenda fengum við til okkar þá Friðrik Guðjónsson og Ara Karlsson, stofnendur fyrirtækisins Feed the Viking. Þeir sögðu frá áhugaverðri vegferð sinni sem frumkvöðlar í dagskrárlið sem við köllum „Founder’s lunch“ en slíkir viðburðir eru reglulega haldnir á vegum Icelandic Startups. Þar gafst þátttakendum jafnframt tækifæri til að spyrja þá spjörunum úr enda hvergi dýrmætara að leita ráða en einmitt hjá þeim sem sjálfir hafa staðið í sömu sporum.

Ævar_Hrafn_KPMG.jpg
Sinna_Gangverk.jpg
TilSjavarOgSveita__hradall___net_01.JPG
Freyr.jpg

Það er krefjandi áskorun að reka viðskiptahraðla að stórum hluta á netinu, ekki síst vegna þess að kjarni þeirra felst í að skapa samfélag og stuðning frumkvöðlanna á milli. Að taka þátt í viðskiptahraðli með þessum hætti kallar á enn meiri einbeitingu og skipulag. Fyrir verkefnastjóra og aðra sem að skipulagi verkefnisins koma skiptir máli að hafa lausnamiðað hugarfar og framúrskarandi samskiptafærni. Að baki er vel heppnuð og lærdómsrík vika.

Við erum þakkklát fyrir frábæran liðsanda og hlökkum mikið til næstu viku. Þá höldum við áfram að vinna með viðskiptalíkanið og setja okkur í spor viðskiptavinanna.

FréttirIcelandic Startups